Velkomin/n á heimasíðu

Félag sjálfstætt starfandi sálfræðinga

Lög Félags sjálfstætt starfandi sálfræðinga

Samþykkt á aðalfundi 30. apríl 2011

I. kafli.  Heiti félags, heimili og hlutverk

1. gr. Félagið heitir Félag sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk félagsins er að vera vettvangur fyrir sjálfstætt starfandi sálfræðinga, að gæta hagsmuna þeirra, efla starfsemi, tengslanet og samvinnu og þannig stuðla að bestu mögulegu sálfræðiþjónustu fyrir almenning.

3. gr. Hlutverki sínu hyggst félagið gegna með því að:

 1. Vinna að hagsmunamálum sjálfstætt starfandi sálfræðinga.
 2. Stuðla að hagnýtri umræðu og fræðslu fyrir sjálfstætt starfandi sálfræðinga og framfylgja endurmenntunarstefnu félagsins.
 3. Verða fullgildur aðili að samningum við opinbera aðila í málefnum er varða sjálfstætt starfandi sálfræðinga og hagsmuni skjólstæðinga þeirra.
 4. Efla persónuleg kynni sjálfstætt starfandi sálfræðinga, meðal annars með því að stofna til mannfagnaða.
 5. Efla tengsl sjálfstætt starfandi sálfræðinga við almenning, sálfræðinema og fagaðila.

II. kafli. Félagsmenn

4. gr. Allir þeir sem hafa starfsleyfi sem sálfræðingar á Íslandi og jafnframt starfa sjálfstætt á eigin stofum, í eigin rekstri eða á stofum sem reknar eru af öðrum sjálfstætt starfandi sálfræðingum, eiga rétt á að verða félagsmenn.

Jafnframt eiga þeir félagsmenn sem hafa hafið töku lífeyris og eru hættir störfum rétt á að vera áfram félagsmenn og greiða þeir þá hálft árgjald.

Nú tilkynnir sálfræðingur stjórn félagsins skriflega að hann óski að gerast félagsmaður og nýtur hann þá félagsréttinda er stjórnin hefur gengið úr skugga um að hann fullnægi skilyrðum til inngöngu í félagið.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send til stjórnar.

5. gr. Stjórn félagsins getur vikið manni úr félaginu ef hann hefur brotið lög félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins.

Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að tjá sig um hina fyrirhuguðu ákvörðun.

Félagsmaður getur krafist félagsfundar til að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu hans undir fundinn.

6. gr. Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna.

III. kafli. Félagsfundir

7. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Aðalfund skal halda í apríl eða maí ár hvert. Til hans skal boðað með tryggilegum hætti, með þriggja vikna fyrirvara hið skemmsta, og er hann þá lögmætur.  

Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum.

8. gr. Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

 1. Stjórn gerir grein fyrir störfum félagsins.
 2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
 3. Ákvörðun árgjalds.
 4. Kosning stjórnar og varastjórnar.
 5. Kostning í nefndir.
 6. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
 7. Önnur mál.

9. gr. Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að kröfu tíunda hluta félagsmanna eða skoðunarmanns.

IV.kafli. Stjórn félagsins

10. gr. Stjórn félagsins skal skipuð 5 sálfræðingum og 2 til vara.

Formann og varaformann skal kjósa sérstaklega og til tveggja ára í senn.  Aðra aðalstjórnarmenn skal kjósa í einu lagi til eins árs og skipta þeir með sér störfum. Varastjórnarmenn skal kjósa í einu lagi til eins árs.

11. gr. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja.

Stjórn félagsins tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess.

Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns nægileg til þess.

12. gr. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara.

Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meiri hluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum.

Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

V. kafli. Ýmis ákvæði

13. gr. Fræðslunefnd

Fræðslunefnd skal skipuð 6 sálfræðingum. Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Aðra fræðslunefndarmenn skjal kjósa í einu lagi til eins árs og skipta þeir með sér störfum.

 

Hlutverk fræðslunefndar er að hafa umsjón með fræðslu á vegum félagsins, bjóða upp á samvinnu við aðra aðila sem bjóða upp á fræðslu sem nýtist félagsmönnum og framfylgja endurmenntunarstefnu félagsins.

14. gr. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

15. gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.

Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.

Fái tillaga til lagabreytingar samþykki meirihluta fundarmanna öðlast hún gildi.

16. gr. Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 15. gr. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins.