Velkomin/n á heimasíðu

Félag sjálfstætt starfandi sálfræðinga

19. október 2017

Þarfaþing föstudaginn 8. sept. 2017

Starfsvetur FSS hófst af fullum krafti með fyrsta þarfaþingi vetrarins föstudaginn 8. september. Góður hópur félagsmanna mætti saman í sal Háteigskirkju að Háteigsvegi og átti gott kvöld.

Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur hóf þarfaþingið á örhugvekju þar sem hún ræddi um og minnti okkur á þakklætið í öllu sínu veldi. Þetta var áhugavert og gott erindi og erum við þakklát fyrir innlegg hennar í starfið okkar. Þá tók hann Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur við með afar fræðandi og góðu fræðsluerindi um sálfræðilega vinnu með hælisleitendum og flóttafólki og samvinnu með túlki. Við erum heppin að eiga svona reynslubolta í okkar röðum enda var mikið spurt og skrafað og við öll fróðari og upplýstari eftir þetta góða erindi. Að þessu loknu færði Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur og varaformaður FSS okkur fréttir frá stjórn félagsins þar sem dagskrá vetrarins var kynnt og staðan tekin á hinum ýmsu málum sem hafa með félagið og félagsmenn að gera. Dagskrá vetrarins má sjá hér á heimasíðunni undir síðunni yfir það sem er á döfinni í félaginu en nú þegar hafa verið stofnaðir viðburðir með dagsetningum og efni þó nákvæmari upplýsingar verði settar inn þegar nær dregur hverjum viðburði. Endilega skoðið það sem í boði verður í vetur og takið dagana frá.

Að þessu loknu bauð félagið upp á girnilega tapas rétti frá Tapas barnum og sushi frá Tokyo sushi ásamt léttum drykkjum með. Það spunnust upp skemmtilegar, fyndnar og furðulegar umræður í hópnum sem skemmti sér vel og átti góða stund saman.

Við í stjórn FSS þökkum félagsmönnum fyrir frábært þarfaþing og hlökkum til áframhaldandi samverustunda.