27. mars 2017
Tillögur að breytingum á lögum
Tillögur að breytingum á lögum Félags sjálfstætt starandi sálfræðinga sem lagðar verða fyrir aðalfund félagsins 20. Apríl 2016
1. breytingartillaga
13. gr. laganna (um fræðslunefnd) orðast svo með fyrirsögn:
13. gr. Fræðslunefnd.
Fræðslunefnd skal skipuð 6 sálfræðingum. Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Aðra fræðslunefndarmenn skjal kjósa í einu lagi til eins árs og skipta þeir með sér störfum.
Hlutverk fræðslunefndar er að hafa umsjón með fræðslu á vegum félagsins, bjóða upp á samvinnu við aðra aðila sem bjóða upp á fræðslu sem nýtist félagsmönnum og framfylgja endurmenntunarstefnu félagsins.
Skýring: Breytingin felur í sér þá viðbót að formaður fræðslunefndar er kosinn sérstaklega og hann jafnframt kosinn til tveggja ára. Önnur efnisatriði breytast ekki.
Fyrir breytingu:
Á aðalfundi er kosin 6 manna fræðslunefnd. Hlutverk hennar er að hafa umsjón með fræðslu á vegum félagsins, bjóða upp á samvinnu við aðra aðila sem bjóða upp á fræðslu sem nýtist félagsmönnum og framfylgja endurmenntunarstefnu félagsins.
Eftir breytingar:
Sjá tillögu
2. breytingartillaga
Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna (um að lögum félagsins verði aðeins breytt á aðalfundi):
2. mgr. fellur brott.
3. mgr. fellur brott.
Skýring: Breytingin felur í sér að fallið er frá því skilyrði að lagabreyting geti aðeins tekið gildi sæki tilskilinn hluti félagsmanna aðalfund. Eftir breytinguna tekur tillaga um lagabreytingu gildi sé hún samþykkt af meirihluta þeirra sem sækja aðalfund.
Fyrir breytingu:
Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.
Tillögur til breytinga á lögum félagsins verða ekki teknar til endanlegrar afgreiðslu nema helmingur félagsmanna hið fæsta sæki fundinn.
Nú sækir ekki tilskilinn hluti félagsmanna aðalfund samkvæmt 2. málsgrein og skal þá efna til framhaldsaðalfundar. Er sá fundur lögmætur án tillits til fundarsóknar.
Fái tillaga til lagabreytingar samþykki meirihluta fundarmanna öðlast hún gildi.
Eftir breytingu:
Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.
Fái tillaga til lagabreytingar samþykki meirihluta fundarmanna öðlast hún gildi.
3. breytingartillaga
Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
Í stað „14. gr.“ kemur: 15. gr.
Skýring: Breytingin felur í sér að röng vísun í lagagrein er leiðrétt.
Fyrir breytingu:
16. gr. Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 14. gr. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins.
Eftir breytingu:
16. gr. Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 15. gr. Á þeim fundi skal þá jafnframt tekin ákvörðun um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins.